12. desember 2022 kl. 14:22
Erlendar fréttir
Þrír drengir látnir eftir slys á ísilögðu vatni nálægt Birmingham
Þrír drengir á aldrinum átta til ellefu ára eru látnir eftir að þeim var bjargað upp úr ísilögðu vatni nálægt bænum Solihull í Bretlandi í gær. Fjórði drengurinn sem var með þeim liggur nú á sjúkrahúsi og berst fyrir lífi sínu.
Lögregla var kölluð út í eftirmiðdaginn í gær, og lögreglumenn og viðstaddir óðu út í vatnið til að bjarga drengjunum. Þeir voru allir fluttir á sjúkrahús í Birmingham, en þrír þeirra voru of langt leiddir til að hægt væri að bjarga þeim.
Ekki er vitað til þess að fleiri börn hafi verið á staðnum, en lögregla hefur í dag leitað í og við vatnið til að taka af allan vafa um það.