Tuttugu fórust í eldsvoða í Síberíu
Tuttugu manns fórust þegar eldur kom upp íbúðarhúsnæði aldraðra í rússnesku borginni Kemerovo í vestanverðri Síberíu á föstudag, samkvæmt Tass-fréttastofunni rússnesku. Haft er eftir slökkviliðsmönnum að önnur hæð hússins hafi brunnið til ösku og húsið allt gjörónýtt. Tvennt er á sjúkrahúsi með alvarleg brunasár. Leit stóð enn yfir í rústunum þegar birta tók á aðfangadag, í um 20 stiga frosti.
Rúmlega 20 manns bjuggu í húsinu, sem ekki var skráð sem dvalarheimili aldraðra heldur leigt út og rekið sem slíkt af einkaaðila, án tilskilinna leyfa. Tass hefur eftir slökkviliðsmanni á vettvangi að mikið sé um slík óopinber dvalarheimili aldraðra, sem sæti litlu eða engu eftirliti með aðbúnaði og þjónustu íbúa, brunavörnum eða öðrum öryggisatriðum, í skjóli þess að vera í eigu einkaaðila.