2. janúar 2023 kl. 5:28
Erlendar fréttir

Gjafmildur pizzugerðarmaður vill að góðverkið verði látið ganga áfram

Eigandi pizzastaðar í Edinborg, höfuðborg Skotlands, ætlar að gefa hverjum borgarbúa eina flatböku, næstum allar stundir, alla daga, allan janúarmánuð.

Pixabay / CC0

Marc Wilkinson, eigandi Pure Pizza, segist í samtali við BBC lengi hafa undirbúið hvernig hann geti af ósérplægni aðstoðað það fólk sem glímir við sífellt hækkandi framfærslukostnað. Hann segist hafa hugsað með sér að réttast væri að framleiða bara fleiri pizzur þar sem ofnarnir eru í gangi allan daginn hvort eð er.

Mögulegt er að baka átján stykki á hverjum sex mínútum að sögn Wilkinsons sem telur að heildarkostnaðurinn nemi um tólf þúsund pundum, eða jafnvirði rúmra tveggja milljóna króna.

Wilkinson kveðst vonast til að þeir sem þiggi flatböku láti svo góðverkið ganga áfram, með einhverjum hætti, en hann segir alla hagnast á uppátækinu, viðskiptavini, birgja að ógleymdu starfsfólkinu á staðnum.