2. janúar 2023 kl. 6:15
Erlendar fréttir

Leikarinn Jeremy Renner liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi

Bandaríski leikarinn Jeremy Renner liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir slys á nýársdag.

Bandaríski leikarinn Jeremy Renner stendur frammi fyrir bakgrunni með merki Disney og áletruninni Hawkeye. Annar ljósmyndari að störfum í bakgrunni.
RICHARD SHOTWELL/AP

Renner er einna þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Clint Barton eða Hawkeye í Marvel-kvikmyndaröðinni Avengers. Talsmaður Renners segir ástand leikarans alvarlegt en stöðugt og að slysið tengist veðri á einhvern hátt.

Fjölskylda Renners er hjá honum á sjúkrahúsinu þar sem hann nýtur fyrirtaks umönnunar að sögn talsmannsins. Ekki hefur verið greint nákvæmlega frá hvað henti en vitað er að Renner á hús í Washoe-sýslu í Nevadaríki þar sem kyngdi niður snjó á gamlárskvöld.