11. janúar 2023 kl. 12:03
Erlendar fréttir
Rússar segja of snemmt að segja Soledar á sínu valdi
Dmitry Peskov, talsmaður rússneska forsetaembættisins, segir of snemmt að tilkynna yfirráð Rússa á bænum Soledar í Donetsk héraði. Fyrr í morgun tilkynnti málaliðahreyfingin Wagner, sem berst fyrir hönd Rússa, að hún hafi náð yfirráðum í bænum. Peskov sagði framvinduna í Soledar jákvæða fyrir Rússa, en sagði að réttast væri að bíða opinberrar yfirlýsingar um valdatöku í borginni.
Úkraínumenn sögðu í morgun að ekkert væri til í því að Wagner hafi náð völdum í Soledar. Herinn sagði Soledar hafa verið, vera og verða úkraínska.
Bærinn er í um 15 kílómetra fjarlægð frá borginni Bakhmut, sem Rússar hafa lengi reynt að koma höndum yfir. Sigur í Soledar yrði mjög mikilvægur Rússum varðandi baráttuna um Bakhmut.