19. janúar 2023 kl. 4:46
Erlendar fréttir
Minnst 70 fórust í frosthörkum í Afganistan
Minnst 70 manneskjur týndu lífinu í grimmdarfrosti sem gekk yfir Afganistan síðustu vikuna. Yfirvöld í Kabúl greina frá þessu. Frost fór allt upp í 32 stig um helgina þar sem kaldast var. Ritzau-fréttastofan hefur eftir Mohammad Nasim Muradi, forstjóra afgönsku veðurstofunnar, að þetta sé mesti kuldi sem mælst hefur í landinu um árabil. Mikil ofankoma, snjór þar sem kaldast var en regn annars staðar, olli miklum vandræðum og lokaði vegum í 20 héruðum landsins, samkvæmt yfirvöldum.
Auk alls fólksins sem fórst drápust um 70.000 nautgripir í kuldakasti síðustu daga, en kýrnar eru ein helsta lífsbjörg fjölda fólks í hinum dreifðari byggðum Afganistans.