23. janúar 2023 kl. 3:28
Erlendar fréttir

Fimm óbreyttir borgarar féllu í árás al-Shabab

Minnst fimm óbreyttir borgarar fórust þegar vígamenn úr röðum al-Shabab-samtakanna gerðu árás á skrifstofur Banaadir-héraðs í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, á sunnudag. Upplýsingaráðuneyti Sómalíu greinir frá þessu í færslu á Facebook.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að vígamennirnir hafi sprengt sprengju við inngang skrifstofubyggingarinnar um hádegisbil og ráðist þar inn í kjölfarið. Þegar öryggisverðir náðu að hrinda árásinni eftir sex klukkustunda átök lágu sex árásarmenn í valnum.

Hryðjuverkamenn al-Shabab-samtakanna réðust inn í opinbera skrifstofubyggingu í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, sunnudaginn 22. janúar 2023 og drápu fimm óbreytta borgara áður en öryggisvörðum tókst að hrinda árásinni. Sex hryðjuverkamenn lágu þá í valnum.
AP / Farah Abdi Warsameh

Al-Shabab eru vopnuð samtök öfga-íslamista sem aðhyllast það afbrigði Íslamstrúar sem kennt er við Wahabi-isma og Sádi-Arabíu, en meirihluti Sómala eru súnní-múslímar. Al-Shabab samtökin hafa lýst sig systursamtök al-Kaída og eru talin hafa á bilinu sjö til níu þúsund menn undir vopnum.