24. janúar 2023 kl. 7:52
Erlendar fréttir
Starfsmaður á forsetaskrifstofu Úkraínu hættir
Kyrylo Tymoshenko, næstráðandi á skrifstofu forsetaembættis Úkraínu, baðst lausnar frá starfi sínu í gær. Frá þessu greindi hann á samfélagsmiðlinum Telegram í morgun. Hann þakkar Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu traustið og tækifærið til þess að láta gott af sér leiða.
Tymoshenko gaf engar frekari skýringar á uppsögn sinni. Úkraínskir fjölmiðlar telja að uppsögnin sé liður í uppstokkun sem Zelensky hefur áður minnst á.
Tymoshenko var aðstoðarskrifstofustjóri forsetaembættisins frá árinu 2019. Hann vann einnig í kosningateymi Zelenskys þar sem hann sá um fjölmiðla- og auglýsingaefni.