8. febrúar 2023 kl. 6:32
Erlendar fréttir

Yfir 8.300 dauðsföll af völdum jarðskjálftanna

Óttast er að tala látinna eigi eftir að tvöfaldast eftir tvo mikla jarðskjálfta sem riðu yfir Tyrkland og Sýrland á mánudagsmorgun. Þegar er vitað að hamfarirnar hafa kostað yfir 8.300 mannslíf en björgunarlið hefur leitað í tvo sólarhringa í rústunum.

Grátandi ættingjar standa við byggingu sem hrundi í öflugum jarðskjálfta í Tyrklandi, 7. febrúar 2023. Þúsundir fórust eða slösuðust en skjálftinn reið yfir Tyrkland sunnanvert og Sýrland norðanvert að morgni 6. febrúar.
EPA-EFE/SEDAT SUNA

Fimbulkuldi ríkir á svæðinu og það hefur snjóað talsvert. Heilbrigðisráðuneyti Tyrklands greindi frá því morgun að 5.894 væru látin og Sýrlendingar segja 2.470 dáin. Ríflega ellefu hundruð þeirra bjuggu á svæðum á valdi uppreisnarmanna.

epa08525407 World Health Organization (WHO) Director-General Tedros Adhanom Ghebreyesus attends a press conference organized by the Geneva Association of United Nations Correspondents (ACANU) amid the COVID-19 pandemic, caused by the novel coronavirus, at the WHO headquarters in Geneva, Switzerland, 03 July 2020.  EPA-EFE/FABRICE COFFRINI
KEYSTONE / EPA-EFE

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, kveðst óttast að líkur minnki sífellt á að fólk finnist á lífi. Stofnunin telur að yfir 20 þúsund kunni að hafa farist, að 23 milljónir manna finni fyrir afleiðingum jarðskjálftanna og hvetur ríki heims til að leggja lið.

Íslensk björgunarsveit hélt til Tyrklands í gærkvöld með flugvél Icelandair. Framtíðin er sömuleiðis óljós og harla dökk fyrir eftirlifendur, sem hafa leitað skjóls í moskum, skólabyggingum og strætisvagnaskýlum.

Fólkið hefur gripið til þess ráðs að brenna brak úr rústunum til að halda á sér hita en yfirvöld hafa skrúfað fyrir gas svo koma megi í veg fyrir sprengingar og eldsneyti er af skornum skammti.