12. febrúar 2023 kl. 22:05
Erlendar fréttir

Bandaríkjamenn skjóta þriðja óþekkta hlutinn niður

Bandaríski herinn skaut í kvöld niður óþekktan hlut í lofthelgi sinni en það er í þriðja sinn á jafnmörgum dögum sem óþekktur hlutur er skotinn niður í Bandaríkjunum eða Kanada.

Aðeins fáeinir dagar eru frá því að bandaríski herinn skaut niður það sem þeir segja hafa verið kínverskan njósnaloftbelg. Í þetta sinn var hluturinn skotinn niður við Huron-vatn, norðaustur af Michigan, á landamærum Bandaríkjanna og Kanada, sem er öllu vestar en í síðustu tveimur tilfellum. Enn er verið að rannsaka hvað þessir hlutir eru í raun.