17. mars 2023 kl. 8:40
Erlendar fréttir

Forsetar Kína og Rússlands funda í Moskvu

Xi Jinping, forseti Kína heldur til Moskvu í næstu viku til fundar við Vladimír Pútín, Rússlandsforseta. Þar ætla þeir að ræða alhliða samvinnu ríkjanna og auka traust þeirra á milli, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Kína. Stjórnvöld þar hafa lagt fram tillögur í tólf liðum til að tryggja frið í Úkraínu, þar á meðal að landhelgi allra ríkja sé virt. Stjórnvöld í Kína hafa þó aldrei fordæmt voðaverk Rússa í Úkraínu.

Tillögurnar hafa fengið dræmar viðtökur hjá Vesturveldum, sem hafa varað Kínverja við því að útvega stjórnvöldum í Rússlandi vopn. Þá hafa Kínverjar fordæmt refsiaðgerðir Vesturvelda gegn Rússum og aukið viðskipti sín við Rússa mikið eftir að þeir réðust inn í Úkraínu.

epa09726930 Russian President Vladimir Putin (L) and Chinese President Xi Jinping (R) meet in Beijing, China, 04 February 2022. Putin arrived in China on the day of the Beijing 2022 Winter Olympic Games opening ceremony.  EPA-EFE/ALEXEI DRUZHININ / KREMLIN / SPUTNIK / POOL MANDATORY CREDIT
epa

Búist er við að innrás Rússa í Úkraínu verði efst á baugi á fundum forsetanna. Qin Gang, utanríkisráðherra Kína, ræddi við Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, í gær og lýsti þá yfir áhyggjum af því að átökin stigmagnist og hvatti til friðarviðræðna. Xi verður í Rússlandi frá mánudegi til miðvikudags, í boði Pútíns.