Forsetar Kína og Rússlands funda í Moskvu
Xi Jinping, forseti Kína heldur til Moskvu í næstu viku til fundar við Vladimír Pútín, Rússlandsforseta. Þar ætla þeir að ræða alhliða samvinnu ríkjanna og auka traust þeirra á milli, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Kína. Stjórnvöld þar hafa lagt fram tillögur í tólf liðum til að tryggja frið í Úkraínu, þar á meðal að landhelgi allra ríkja sé virt. Stjórnvöld í Kína hafa þó aldrei fordæmt voðaverk Rússa í Úkraínu.
Tillögurnar hafa fengið dræmar viðtökur hjá Vesturveldum, sem hafa varað Kínverja við því að útvega stjórnvöldum í Rússlandi vopn. Þá hafa Kínverjar fordæmt refsiaðgerðir Vesturvelda gegn Rússum og aukið viðskipti sín við Rússa mikið eftir að þeir réðust inn í Úkraínu.
Búist er við að innrás Rússa í Úkraínu verði efst á baugi á fundum forsetanna. Qin Gang, utanríkisráðherra Kína, ræddi við Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, í gær og lýsti þá yfir áhyggjum af því að átökin stigmagnist og hvatti til friðarviðræðna. Xi verður í Rússlandi frá mánudegi til miðvikudags, í boði Pútíns.