Þrír sakfelldir fyrir morðið á XXXTentacion
Héraðsdómur í Flórída hefur sakfellt þrjá karlmenn á þrítugsaldri fyrir morðið á rísandi rappstjörnunni XXXTentacion.
Rapparinn, sem hét réttu nafni Jahseh Onfroy, var aðeins tvítugur þegar hann var skotinn til bana um hábjartan dag í Deerfield Beach, nálægt Miami-borg í Bandaríkjunum árið 2018.
Mennirnir sem hafa verið sakfelldir heita Michael Boatwright, Dedrick Williams og Trayvon Newsome. Þeir rændu Onfroy einnig 50 þúsund Bandaríkjadölum, sem jafngildir sjö milljónum íslenskra króna, og hafa verið sakfelldir fyrir manndráp og vopnað rán. Þeir gætu átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.
XXXTentacion skaust upp á stjörnuhimininn um miðbik síðasta áratugs með tónlist sem einkennist af raunamæddri textagerð og samblöndu af ólíkum tónlistartegundum, þar á meðal rappi, trappi, rokki og raftónlist.
Hann átti að baki ofbeldissögu og var tími hans í sviðljósinu að hluta til litaður af því. Hann sat nokkrum sinnum í fangelsi og var ákærður fyrir vopnað rán, innbrot, og fyrir að veitast að fyrrverandi kærustu sinni sem þá var þunguð.