Frans páfi á batavegi
Frans páfi er á batavegi en hann dvaldi á sjúkrahúsi í nótt. Óvíst er hvort hann verði orðinn hress í næstu viku, sem er annasamasta á ári hverju í Páfagarði.
Í tilkynningu frá Páfagarði segir að hinn 86 ára gamli, argentínski Frans páfi, þjáist af öndunarfærasýkingu og því verði hann að dvelja á sjúkrahúsi næstu daga.
Hjúkrunarfræðingar eru þó vongóðir að páfinn verði orðinn hraustur fyrir messuhald á pálmasunnudag, að því er segir í ítalska miðlinum Ansa. Einnig segir að læknisskoðun hafi útilokað bæði lungnabólgu og hvers kyns hjartavandamál. Þá er páfinn heldur ekki með Covid-19.
Í morgun sendi Páfagarður frá sér tilkynningu þar sem páfinn var sagður á batavegi. Eftir að hann snæddi morgunverð í morgun, segir í tilkynningunni, las páfinn dagblöð og sneri aftur til vinnu.