8. apríl 2023 kl. 2:25
Erlendar fréttir

Banda­rík­in styðja rétt Ísra­ela til sjálfs­varn­ar

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna kveðst standa með rétti Ísraelsmanna til sjálfsvarnar. „Atlögur að almennum borgurum af hvaða þjóðerni sem er, eru svívirðilegar,“ segir Vedant Patel, talsmaður ráðuneytisins, í kjölfar mannskæðra árása á Vesturbakkanum og í Tel Aviv auk eldflaugaárása frá Líbanon.

Hópur Palestínumanna fylgist með ferðum eldflaugar sem skotið var frá Gaza í átt til Ísraels snemma morguns 5. apríl 2023. Allt umhverfis brenna hjólbarðar en ísraelski flugherinn gerði loftárásir á Gaza í kjölfar eldflaugaskotanna þaðan.
EPA-EFE/MOHAMMED SABER

Ísraelsmenn gerðu loftárásir á Líbanon í hefndarskyni seinustu nótt. Annar ónefndur fulltrúi bandaríska utanríkisráðuneytisins segir það ógna öryggi Líbanon að nota landið sem skotpall árása gegn Ísrael og hvetur til jafnfamt alla hlutaðeigandi til að láta af hernaðaraðgerðum.

Bíll árásarmanns í Tel Aviv á hvolfi.
AP / Oren Ziv

Ofbeldi hefur stigmagnast síðan á miðvikudag, þegar ísraelsk lögregla réðst gegn Palestínumönnum í al-Aqsa moskunni í Jerúsalem.

Tvær ungar bresk-ísraelskar systur voru myrtar í skotárás á föstudag á Vesturbakkanum, og móðir þeirra særðist alvarlega. Í gærkvöld var ítalskur ferðamaður myrtur í Tel Aviv og sex særðir þegar árásarmaður hóf skothríð eftir að hafa ekið bíl sínum á hóp fólks.