11. apríl 2023 kl. 13:37
Erlendar fréttir

Teiknimyndahöfundur Mad-tímaritsins látinn

Margverðlaunaði teiknimyndahöfundurinn Al Jaffee er látinn, 102 ára að aldri. Jaffee gerði garðinn frægan með teiknimyndasögum sem birtust í skoptímaritinu Mad í Bandaríkjunum. Tímaritið naut mikilla vinsælda áður en útgáfu þess var hætt árið 2018.

Jaffee lést í Manhattan í gær eftir fjöllíffærabilun. Hann settist í helgan stein 99 ára gamall.

Mad hefur haft mikil áhrif á skopmyndagerð og menningu almennt. Það hefur meðal annars verið vísað til þess í bandarísku sjónvarpsþáttunum Simpsons og fjölda annarra þátta og kvikmynda. Grínistinn Jerry Seinfeld og útvarpsmaðurinn Howard Stern voru meðal aðdáenda tímaritsins sem hóf göngu sína árið 1952.

Andrew Welsh-Huggins / AP