Unglingur sem skotinn var tvisvar fær heimboð í Hvíta húsið
Bandarískur unglingur sem skotinn var tvisvar þegar hann fór húsavillt á fimmtudag, hefur fengið heimboð í Hvíta húsið, þegar hann jafnar sig. Hann hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi, en annað skotið hæfði hann í höfuðið.
Joe Biden Bandaríkjaforseti segir atvikið sýna glöggt hve ofbeldi tengt skotvopnum er farið úr böndunum. Ralph Yarl, sextán ára svartur drengur, hringdi dyrabjöllu í röngu húsi þegar hann hugðist sækja bræður sína tvo.
Biden segir ekkert foreldri eigi að þurfa að óttast að barnið þeirra verði skotið fyrir slík mistök. Sá sem hleypti af er 84 ára gamall maður, Andrew Lester að nafni, og hélt að drengurinn ætlaði að ræna sig. Hann hefur verið ákærður en gengur laus eftir að hafa lagt fram 200 þúsund bandaríkjadala tryggingu.