„Landsvæði beggja vegna Taívan-sunds tilheyra Kína“
„Landsvæðin beggja vegna Taívan-sunds tilheyra Alþýðulýðveldinu Kína,“ segir Qin Gang, utanríkisráðherra Kína og því sé það í fullum rétti til að tryggja fullveldi sitt þar um slóðir.
Ráðherrann lét þessi orð falla á ráðstefnu í stórborginni Shanghai þar sem hann fór um víðan völl, allt frá því að ræða skuldsetningu fátækra ríkja til efnahagsástands heimsins og stöðunnar í Úkraínu að ógleymdu Taívan.
Qin sagði ásakanir á hendur Kínverja þess efnis að þeir ógnuðu stöðugleika í heimshlutanum fáránlegar og afleiðingar þeirra hættulegar.
Ríkisstjórn þjóðernissinna flúði til Taívan og endurreisti þar lýðveldið Kína eftir sigur kommúnista í borgarstyrjöldinni 1949 en stjórnvöld alþýðulýðveldisins líta á eyjarnar sem óaðskiljanlegan hluta þess. Aðeins rúmur tugur ríkja viðurkennir nú fullveldi Taívan.