24. apríl 2023 kl. 2:15
Erlendar fréttir

Ferðum frá Berlínarflugvelli aflýst vegna verkfalls

Öllum flugferðum hefur verið aflýst í dag frá Brandenborgarflugvelli við Berlín höfuðborg Þýskalands, vegna verkfalls öryggisstarfsfólks. Stéttarfélög krefjast verulegra kauphækkana til að halda í við verðbólgu.

Tómur Brandenburgarflugvöllur í Berlín.
EPA / Filip Singer

Talsmaður flugvallaryfirvalda segir að um 240 ferðum hafi verið frestað og varar við að miklar tafir geti orðið á komum flugvéla til vallarins.

Þetta voldugasta hagkerfi Evrópu hefur mátt þola víðtækari verkfallsaðgerðir það sem af er þessu ári en marga áratugi þar á undan. Í seinustu viku urðu verkfallsaðgerðir til þess að flugvöllunum í Düsseldorf, Hamborg, Köln og Stuttgart var lokað auk þess sem miklar tafir urðu á lestarsamgöngum.