Flugvél með hjálpargögn lent í Súdan
Flugvél alþjóða Rauða krossins lenti í Súdan í morgun. Þetta eru fyrstu hjálpargögn samtakanna sem berast til landsins eftir að stríð braust þar út fyrir hálfum mánuði.
Mikil neyð ríkir í Súdan. Skortur er á mat, lyfjum og vatni. Sú neyð bætist við hættuna á að almennir borgarar lendi í eldlínu átaka milli herjanna tveggja, stjórnarhersins og RSF-uppreisnarhersins sem berjast um völdin í landinu. Vopnahlé hafa ekki haldið, rúmlega fimm hundruð hafa fallið og á fimmta þúsund særst. Langar raðir eru við allar leiðir úr landinu.
Fyrsta flugvél Alþjóða Rauða krossins með hjálpargögn lenti í Súdan í morgun. Um borð voru átta tonn af lækningabúnaði fyrir spítala sem eru yfirfullir og eins fyrir sjálfboðaliða á vegum Rauða hálfmánans í Súdan.
Abdalla Hamdok, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, segir átökin vera martröð og ástandið geti hæglega orðið verra en eftir stríðsátökin í Sýrlandi og Líbíu. Hann líkir ástandinu við upphaf borgarastríðanna í löndunum tveimur og segir að það geti aukið mjög á flóttamannavandann í heiminum í dag.