1. maí 2023 kl. 3:26
Erlendar fréttir

Mótmæli boðuð 1. maí gegn eftirlaunalögum Macrons

Enn ríkir mikil andstaða við eftirlaunalögin sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti staðfesti með undirskrift sinni í seinasta mánuði.

Emmanuel Macron
AP / Michel Euler

Stjórnarandstaðan og leiðtogar stéttarfélaga vonast til að landsmenn flykkist í kröfugöngur á baráttudegi verkalýðsins til að sýna það og sanna. Hörð mótmæli mánuðum saman komu ekki í veg fyrir að eftirlaunaaldur var hækkaður með lögum, úr 62 í 64 ár.

Macron og ríkisstjórnin hafa reynt allt hvað getur að beina sjónum landsmanna annað, en forsetanum hefur mætt hörð andstaða, baul og glymur í búsáhöldum, hvert sem hann hefur komið á ferðum um landið undanfarið.

Þegar Macron mætti á bikarúrslitaleik í knattspyrnu á Stade de France á laugardag hugðust mótmælendur sýna honum rauð spjöld og blása í dómaraflautur þegar 49 mínútur og 30 sekúndur voru liðnar af leiknum.

Það átti að vera til marks um vanþóknun á beitingu stjórnarskrárgreinar 49.3 til að koma eftirlaunafrumvarpinu í gegn um þingið án atkvæðagreiðslu. Andófið varð þó ekki jafnkröftugt og til stóð, enda gerðu öryggisverðir megnið af spjöldum og flautum upptækt.

Þótt skoðanakannanir sýni að þrír fjórðu landsmanna séu óánægð með störf Macrons hefur smám saman dregið úr krafti og umfangi mótmælanna. Það á ekki síst við um aðgerðir í miðri viku, en skýringin er helst talin sú að fólk vilji ekki endalaust verða af launum.