18. maí 2023 kl. 14:51
Erlendar fréttir

Ellefu látin í gríðarlegum flóðum á Ítalíu

Ellefu hafa farist, nokkurra er saknað og þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín í miklum flóðum og aurskriðum á norðurhluta Ítalíu síðustu daga. Borgarstjóri Ravenna segir borgina óþekkjanlega eftir hamfarirnar.

Úrhellisrigning hefur verið í Emilia-Romagna-héraði sem valdið hefur flóðum og aurskriðum. Ráðherra almannavarna á Ítalíu segir að á 36 klukkutímum hafi úrkoman verið jafnmikil og meðalúrkoma yfir hálft ár. Ár hafa flætt yfir bakka sína og 37 bæir og ræktarland eru á floti.

Miklar skemmdir hafa orðið í borginni Ravenna við Adríahaf sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Borgarstjórinn segir hana óþekkjanlega. Þar þurfti að flytja fjórtán þúsund manns á brott frá heimilum sínum með hraði. Sumum var bjargað af húsþökum. Alls hafa verið skráðar 120 aurskriður í héraðinu. Ellefu hafa fundist látnir og nokkurra er saknað. Spáð er áframhaldandi úrkomu þar næstu daga.

Flóð á Ítalíu. Maður hjólar eftir götu í borg sem er á kafi í vatni. Beggja vegna götunnar eru fölbleik hús. Maðurinn hjólar meðfram húsvegg vinstra megin á mynd. Hann er í rauðu dúnvesti og grænum gúmmístígvélum. Vatnið nær upp á mið dekk hjólsins.
EPA