18. maí 2023 kl. 16:49
Erlendar fréttir

Kólumbíuforseti segir börnin ekki fundin og leit standi enn yfir

Gustavo Petro forseti Kólumbíu hefur dregið til baka fullyrðingu sína frá því í gær um að börn sem hefur verið saknað vikum saman í frumskógum Amazon séu fundin á lífi. Hann eyddi fyrri færslu sinni á Twitter og skrifaði nýja þar sem hann biðst afsökunar á því að hafa hlaupið svona á sig. Herinn og frumbyggjaþjóðir haldi áfram leitinni að börnunum fjórum sem ekkert hefur spurst til síðan 1. maí.

Börnin eru þrettán ára, níu ára, fjögurra ára og það yngsta aðeins ellefu mánaða. Þau voru ásamt þremur fullorðnum um borð í flugvél sem hrapaði í regnskógum landsins. Lík þeirra fullorðnu fundust á mánudag og þriðjudag, þar á meðal lík móður barnanna. Vísbendingar hafa fundist um för barnanna, til að mynda leifar ávaxta og ungbarnapeli.

Petro lýsti í gær gleði sinni og þjóðarinnar yfir því að börnin væru öll fundin á lífi eftir langa leit hermanna. Kólumbískir miðlar fengu hins vegar enga staðfestingu á því frá hernum, og enginn leitarflokkanna sagðist vera búinn að finna börnin.