20. maí 2023 kl. 21:04
Erlendar fréttir
Meloni flýtir heimför sinni af G7-fundinum vegna flóða
Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, hefur ákveðið að flýta heimför sinni frá leiðtogafundi G7 ríkjanna sem nú stendur yfir í japönsku borginni Hiroshima. Meloni vill vera til staðar fyrir íbúa Emilia Romagna-héraðsins sem glíma við söguleg flóð.
Fjórtán eru látnir og tíu þúsund hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Þetta eru verstu flóð á Ítalíu í heila öld og Meloni sá ástæðu til að þakka öðrum leiðtogum á fundinum fyrir þann samhug sem þeir hafa sýnt. Ráðherraráð Ítalíu kemur saman til fundar á þriðjudag til að ræða viðbrögð við flóðunum.