Bandarískur lögreglumaður skaut 11 ára dreng
Fjölskylda 11 ára drengs sem skotinn var af lögreglumanni í Mississippi í Bandaríkjunum í síðustu viku krefst þess að málið sé rannsakað til fullnustu.
Móðir drengsins segir hann hafa hringt á lögregluna og tilkynnt heimiliserjur. Lögreglumaður sem kom að heimilinu hafi svo miðað byssu að fjölskyldumeðlimum og sagt þeim að koma út með uppréttar hendur. Þegar drengurinn kom inn í stofu af herbergisgangi hafi lögreglumaðurinn skotið hann.
Drengurinn lifði árásina af en móðir hans segir hvorki hann né fjölskyldu hans skilja hvers vegna hann hafi verið skotinn. Ómögulegt sé að lögreglumaðurinn hafi haldið hann vera fullorðinn eða vopnaðan.
Bæjarstjóri Indianola, þar sem atvikið átti sér stað, segir að lögreglumaðurinn hafi verið tímabundið leystur frá störfum. Sálrænt ástand hans verði metið og málið sé til rannsóknar.