Úkraínumenn gætu átt von á langdrægum bandarískum eldflaugum
Joe Biden Bandaríkjaforseti er sagður hafa á prjónunum að afhenda Úkraínumönnum á næstu vikum nokkrar háþróaðar, langdrægar eldflaugar. Biden hefur verið tregur til að samþykkja afhendingu slíkra vopna af ótta við bein átök við Rússa.
Úkraínumenn hafa lengi beðið um langdrægar flaugar og þeir Biden og Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti ræddu það á fundi þeirra í vikunni. Tilgangurinn er, samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla, að styðja enn frekar við gagnsóknina gegn rússneska innrásarliðinu.
Haft er eftir embættismönnum að til standi að Úkraínuher fái ATACMS flaugar sem draga allt að þrjú hundruð kílómetra, sem er fjarri framlínu átakanna. Hvorki bandarísk né úkraínsk stjórnvöld hafa staðfest vangaveltur fjölmiðlanna.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir heimildarmanni innan úkraínska hersins að Storm Shadow eldflaugum hafi verið beitt í árásinni á höfuðstöðvar rússneska flotans í Sevastopol á Krímskaga í gær. Þær draga 150 kílómetra, voru fengnar frá frá Frökkum og Bretum sem heimildarmaðurinn segir sanna enn frekar mikilvægi vopna frá Vesturlöndum.