24. nóvember 2023 kl. 17:50
Erlendar fréttir
Holland

Týnd eiturslanga stal senunni í hollenskum fjölmiðlum

Á meðan augu flestra Hollendinga og annarra Evrópubúa voru á hollensku kosningunum var ekki síðri spenna í hollensku borginni Tilburg vegna horfinnar eiturslöngu. Borgarbúar hafa verið á nálum síðan á mánudag eftir að eigandi slöngunnar tilkynnti lögreglunni um hvarfið.

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu um að stórhættuleg tveggja metra löng eiturslanga væri horfin úr búri sínu, og íbúar beðnir um að halda sig innandyra. Ef hún yrði á vegi þeirra ættu íbúar alls ekki að reyna að fanga hana.

Mynd af vef borgaryfirvalda í Tilburg af mamba eiturslöngu sem hvarf úr búri eiganda síns.
Tilburg
Mynd sem birt var af slöngunni á samfélagsmiðlum lögreglunnar í Tilburg.

Leitarhundar og slöngusérfræðingar voru fengnir til aðstoðar við leitina, þar til það kom í ljós í dag að hún hafði náð að koma sér innan í millivegg á heimili eigandans. Slangan var í fínu ásigkomulagi þegar hún fannst og tókst að innbyrða vatn.