25. nóvember 2023 kl. 8:01
Erlendar fréttir
Bandaríkin

Hindra kennslu á áhrifum mannfólks á loftslagsbreytingar

Menntaráð í Texas í Bandaríkjunum hefur hindrað notkun kennslubóka sem fjalla um áhrif mannfólks á loftslagsbreytingar. Bókum frá átta af rúmlega tuttugu útgefendum sem vísað var til ráðsins var hafnað. Sumar voru samþykktar með breytingum á þeim köflum sem fjölluðu um loftslagsbreytingar.

Evelyn Brooks, sem situr í menntaráði Texas, segir í samtali við fréttaveitu AFP að margar þeirra bóka sem var hafnað innihaldi hræðsluáróður um að mannfólk hafi slæm áhrif á umhverfið.

Vísindamenn um allan heim og bandaríska ríkið viðurkenna almennt þátt mannfólks í loftslagsbreytingum. Hvort sá þáttur sé kenndur í bandarískum skólum er hins vegar háð ákvörðun stjórnvalda í hverju ríki Bandaríkjanna fyrir sig.