19. apríl 2024 kl. 14:54
Erlendar fréttir
Bandaríkin

Kalla inn Cybertruck út af fastri inngjöf

Cybertruck frá Tesla.
EPA / ADAM DAVIS

Bílaframleiðandinn Tesla hefur kallað inn 3.878 eintök af jeppanum Cybertruck í Bandaríkjunum vegna galla sem getur valdið því að inngjöf bílanna festist niðri.

Tesla tilkynnti gallann til samgönguyfirvalda í vikunni, en framleiðandinn sagði að gallinn gæti aukið líkur á slysum. Ekki var þó vitað til þess að slys hafi orðið vegna gallans, en skipt verður um íhlutinn til að fyrirbyggja þau.

Elon Musk forstjóri Tesla hefur lagt mikla áherslu á að Cybertruck sé bíll framtíðarinnar, en Tesla hefur ekki náð að keyra upp framleiðsluhraðann að því marki sem stefnt var að.

Musk miðar við að á næsta ári verið 250.000 bílar framleiddir.

Fleiri slæmar fréttir hafa borist af Tesla upp á síðkastið en í vikunni sagði fyrirtækið upp rúmlega tíu prósentum af öllu starfsfólki sínu á heimsvísu. Ástæðan var sögð vera aukin samkeppni á rafbílamarkaðinum og minnkandi eftirspurn.