Loftslagsbaráttufólk límdi sig fast við flugbraut München
Öllum ferðum var frestað snemma í morgun um alþjóðaflugvöllinn í þýsku borginni München þegar loftslagsbaráttufólki tókst að koma sér fyrir á annarri flugbrautinni.
Þýski miðillinn Die Welt greinir frá þessu og segir sex úr hópnum hafa límt sig föst við flugbrautina. Loftslagsbaráttuhópurinn Letzte Generation, Síðasta kynslóðin, kvaðst í póstum á samfélagsmiðlinum X bera ábyrgð á aðgerðunum og birti myndir og myndskeið af mótmælendum með skilti á lofti.
Hópurinn hefur staðið fyrir ýmiss konar mótmælum af þessu tagi áður. Fjöldi lögreglumanna og björgunarliðs umkringdi andófsfólkið og átta voru fljótlega handtekin. Lögregla kveðst hafa náð fullri stjórn á aðstæðum og báðar flugbrautir hafa verið opnaðar fyrir flugtak og lendingar. Mikið annríki er á flugvöllum í Þýskalandi, enda hvítasunnuhelgi og fjöldi fólks á ferð og flugi.