18. maí 2024 kl. 6:54
Erlendar fréttir
Þýskaland

Loftslagsbaráttufólk límdi sig fast við flugbraut München

Öllum ferðum var frestað snemma í morgun um alþjóðaflugvöllinn í þýsku borginni München þegar loftslagsbaráttufólki tókst að koma sér fyrir á annarri flugbrautinni.

An information board showing canceled flights at the Frankfurt Airport, in Frankfurt am Main, Germany, 12 March 2024. The UFO cabin crew union has called on its members to strike, to press their demands for better wages. According to Lufthansa, 100,000 passengers should be affected by a two day strike in Frankfurt and Munich airport.
EPA-EFE/ANDRE PAIN

Þýski miðillinn Die Welt greinir frá þessu og segir sex úr hópnum hafa límt sig föst við flugbrautina. Loftslagsbaráttuhópurinn Letzte Generation, Síðasta kynslóðin, kvaðst í póstum á samfélagsmiðlinum X bera ábyrgð á aðgerðunum og birti myndir og myndskeið af mótmælendum með skilti á lofti.

Skjáskot af X-síðu loftslagsbaráttuhópsins Letzte Generation sem sýnir mótmælanda, einn nokkurra, sem komu sér fyrir á flugbraut við alþjóðlega flugvöllinn í þýsku borginni München snemma morguns 18. maí 2024.
Skjáskot/X

Hópurinn hefur staðið fyrir ýmiss konar mótmælum af þessu tagi áður. Fjöldi lögreglumanna og björgunarliðs umkringdi andófsfólkið og átta voru fljótlega handtekin. Lögregla kveðst hafa náð fullri stjórn á aðstæðum og báðar flugbrautir hafa verið opnaðar fyrir flugtak og lendingar. Mikið annríki er á flugvöllum í Þýskalandi, enda hvítasunnuhelgi og fjöldi fólks á ferð og flugi.