Gæsluvarðhald framlengt yfir Paul Watson
Dómari í Nuuk, höfuðstað Grænlands, úrskurðaði í dag umhverfissinnann Paul Watson í áframhaldandi gæsluvarðhald til 5. september. Watson var handtekinn í júlí á grundvelli alþjóðlegrar handtökuskipunar að beiðni japanskra yfirvalda. Watson er sakaður um að hafa ráðist að japönskum hvalveiðimönnum við Suðurskautslandið árið 2010 og valdið líkams- og eignatjóni. Við því broti getur legið allt að fimmtán ára fangelsi.
Óttast um afdrif Watsons verði hann framseldur
Lögmaður Watson hefur áfrýjað niðurstöðu dómarans, en enn er beðið ákvörðunar danskra stjórnvalda um hvort Watson verði framseldur til Japan.
Watson var lengi kenndur við náttúruverndarsamtökin Sea Shepherd. Hann stofnaði svo sjóð í eigin nafni í baráttu sinni til verndar hvölum og selum.