Fjórir voru skotnir til bana, jafn margir eru í lífshættu og tugir særðust í skotárás fyrir utan bar í borginni Birmingham í Alabama-ríki í Bandaríkjunum í gærkvöld.
Nokkrir árásarmenn hófu skothríð á hóp fólks sem var á gangstétt fyrir utan barinn um klukkan ellefu í gærkvöld að staðartíma. Tveir karlar og ein kona voru látin þegar lögregla og sjúkraflutningamenn komu á staðinn, fjórða manneskjan lést á sjúkrahúsi.
Lögregla rannsakar tildrög árásarinnar sem eru um margt óljós. Ekki er víst hvort árásarmennirnir gengu upp að fólkinu og hófu skothríð eða keyrðu fram hjá og skutu út um glugga bíls. Enginn er í haldi.