Hundruð handtekin í rannsókn á barnaníði
Lögregluyfirvöld í Malasíu hafa handtekið 355 menn sem grunaðir eru um að hafa stundað barnaníð á umönnunarheimilum reknum af íslamskri samsteypu.
Að minnsta kosti 186 börnum var bjargað í aðgerðum lögreglu og læknisrannsókn sýnir að minnst þrettán þeirra voru beitt kynferðisofbeldi. Yfirvöld segja hina handteknu tilheyra Global Ikhwan Service and Business (GISB), sem talið er tengjast íslamska sértrúarhópnum Al-Arqam. Starfsemi hans var bönnuð í Malasíu fyrir þrjátíu árum en samsteypan hefur lengi legið undir ámæli trúarlegra yfirvalda vegna þeirrar tengingar.
Lögregla gerði rassíur á 82 stöðum í landinu, meðal annars á líknarheimilum, heilsugæslustöðum, trúarlegum skólum og á einkaheimilum. Stjórnvöld hafa einnig fryst tæplega hundrað bankareikninga samsteypunnar. Á vefsíðu hennar segir að starfsemin hverfist meðal annars um rekstur stórmarkaða og veitingastaða í nokkrum löndum, þar á meðal Indónesíu, Frakklandi og Bretlandi.