Segir Íran fá að gjalda fyrir loftárásina
Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels segir að stjórnvöld í Íran hafi gert stór mistök og fái að gjalda fyrir þau. Hátt í tvö hundruð eldflaugum var skotið frá Íran til Ísrael fyrr í kvöld, flestar voru skotnar niður.
Einn Palestínumaður lést, hann varð fyrir broti úr íranskri eldflaug á Vesturbakkanum og tveir særðust í Tel Aviv. Auk þeirra slösuðust nokkrir sem flýttu sér í neyðarskýli til að skýla sér fyrir árásinni. Evrópusambandið, Bretland og Spánn hafa fordæmt árásina og stjórnvöld í Bandaríkjunum lýsa fullum stuðningi við Ísrael.
„Að minni skipan tók Bandaríkjaher þátt í að verja Ísrael. Við erum enn að meta áhrifin. En það sem við vitum núna er að árásinni var hrundið og hún bar ekki árangur,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi.
Spurður hverjar honum fyndust afleiðingarnar ættu að vera fyrir Íran sagði Biden það eiga eftir að koma í ljós.