5. október 2024 kl. 1:15
Erlendar fréttir
Bandaríkin

Bankastjóri JP Morgan segir ekki rétt að hann styðji Donald Trump

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, birti í dag það sem reyndist fölsk stuðningsyfirlýsing frá aðalbankastjóra JP Morgan.

Donald Trump ávarpar viðstadda á blaðamannafundi í New Jersey 15. ágúst 2024. Fyrir aftan hann hangir bandaríski fáninn.
Donald Trump forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins.ASSOCIATED PRESS / Julia Nikhinson

Svo virðist sem Trump hafi deilt mynd af Jamie Dimon á Truth Social af öðrum samfélagsmiðli með yfirskriftinni „Nýtt: Jamie Dimon forstjóri JP Morgan styður Trump til forsetaembættisins“. Talsmaður Dimons brást skjótt við og sagði hann hvorugan frambjóðandann styðja opinberlega. Yfirlýsingin hafi verið hrein fölsun.

Í ágúst birti Donald Trump falsaðar ljósmyndir sem áttu að sanna stuðning poppstjörnunnar Taylor Swift við hann.

Hún hefur hins vegar sagst ákveðið ætla að kjósa Kamölu Harris varaforseta og hvetur aðdáendur sína til hins sama. Swift sagði myndirnar sem Trump birti sanna áhyggjur sínar af beitingu gervigreindar við að dreifa fölskum upplýsingum. Sannleikinn sagði hún besta vopnið gegn því.