Alec Baldwin hefur höfðað mál gegn lögreglu og saksóknara.AP/Pool AFP / Ramsay de Give
Bandaríski leikarinn Alec Baldwin hefur höfðað mál gegn saksóknaraembættinu í Nýju Mexíkó og lögregluyfirvöldum í Santa Fe. Hann segir bæði embættin hafa af ráðnum hug brotið gegn mannréttindum hans með tilhæfulausri ákæru.
Dómari vísaði frá sakamáli á hendur Baldwin í júlí með þeim rökum að saksóknarar og lögregla hefðu haldið sönnunargögnum frá verjendum hans. Saksóknarar drógu áfrýjun í því máli til baka seint í desember.
Halyna Hutchins, tökustjóri vestrans Rust, lést af völdum voðaskots úr skammbyssu sem Baldwin beindi að henni á tökustað síðsumars 2021. Vopnavörðurinn Hannah Guiterrez-Reed var í apríl dæmd fyrir manndráp af gáleysi.