„Þetta er bara mín ákvörðun“
Heilbrigðisráðherra segir að hann hafi ákveðið að skipa Sigurð Helgason í stöðu forstjóra Sjúkratrygginga án auglýsingar til þess að tryggja samfellu eftir uppsögn forvera hans. Sigurður var áður skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og hefur verið fluttur til í starfi á grundvelli heimildar í 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eins og segir í tilkynningu um málið á vef Stjórnarráðsins. Það eru sömu lög og styr hefur áður staðið um, meðal annars vegna ráðningar nýs þjóðminjavarðar og ráðuneytisstjóra í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu án auglýsingar.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að almenna reglan sé að auglýsa stöður en ákvörðun hans um að skipa Sigurð gefi engan afslátt af skipunartímanum, sem er fimm ár.
„Til að tryggja samfellu í störfum stofnunarinnar þá var Sigurður Helgason skipaður. Hann hefur góðan bakgrunn, þekkingu og reynslu af stjórnsýslu og þekkingu sérstaka á þessari stofnun. Þannig að ég held að hann sé góður liðsauki við það stjórnendateymi sem er fyrir hjá Sjúkratryggingum. 36. greinin sem gefur þennan möguleika, ég tek það bara fram að þetta er bara mín ákvörðun. Hún gefur engan afslátt af þessum afmarkaða skipunartíma.“