19. janúar 2023 kl. 18:08
Innlendar fréttir
Borgin stefnir að opnun sundlauga á morgun
Reykjavíkurborg stefnir að opnun flestra sundlauga borgarinnar klukkan þrjú á morgun. Laugunum var lokað vegna álags á hitaveitukerfi Veitna í kuldatíðinni og skertu flæði á heitu vatni til stórnotenda.
Í tilkynningu frá borginni er tekið fram að útisundlaugar gætu ekki hafa hitnað til fulls þegar laugarnar verða opnaðar. Heitir pottar ættu hins vegar að vera orðnir heitir.
Ylströndin í Nauthólsvík verður opnuð klukkan 12 á hádegi á morgun og Árbæjarlaug verður opnuð á laugardagsmorgun klukkan níu.