Farið að sjatna í flestum ám
Farið er að sjatna í flestum ám á landinu eftir mikla vatnavexti síðustu daga. Enn er þó há vatnsstaða á vesturhelmingi landsins að sögn Kristínar Elísu Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.
Hún segir bæði úrkomu og leysinga hafa stuðlað að vatnavöxtum en ár og lækir flæddu víða yfir bakka sína á Vesturlandi. „Svo var líklegast víðast hvar frost í jörðu og þá kemst vatnið ekkert annað en upp á yfirborðið, jarðvegurinn dregur ekkert í sig.“
Kólnað hafi í veðri síðasta sólarhringinn og úrkoman sé að breytast í él. Hiti verði líklega við frostmark fram að helgi en Kristín segir ólíklegt að vatnavextir verði aftur jafn miklir á næstunni. „Margar ár náðu að ryðja sig og það er ólíklegt að þetta verði jafn mikið. Það þarf þó að bíða og sjá. Þetta gerist ekki oft á þeim skala sem við sáum um helgina.“