21. febrúar 2023 kl. 6:15
Innlendar fréttir
Edda Falak hefur störf á ritstjórn Heimildarinnar
Fjármálafræðingurinn, áhrifavaldurinn og hlaðvarpsstjórnandinn Edda Falak hefur hafið störf á ritstjórn Heimildarinnar. Frá þessu segir fjölmiðillinn á heimasíðu sinni. Mun Edda stýra þáttum um samfélagsmál auk annarra verkefna.
Hlaðvarpsþættirnir Eigin Konur birtust í fyrsta sinn á Stundinni í fyrra en Edda hafði þá stýrt þáttunum um nokkurt skeið.
Í tilkynningu frá Heimildinni segir að Edda muni halda áfram að fjalla um margvíslegar birtingarmyndir ofbeldis og áhrif þess á þolendur og samfélagið í heild, auk þess að sinna öðrum verkefnum.
Haft er eftir Eddu að það sé mikils virði að vera orðin hluti af ritstjórn Heimildarinnar þar sem hún fái tækifæri til að fjalla um mál í víðara samhengi en áður. Fyrstu þættirnir fara í loftið í mars.