900 milljóna styrkir veittir til orkuskiptaverkefna
Auglýst verður fljótlega eftir umsóknum um almenna styrki vegna orkuskipta í samgöngum um land allt og vistvænnar orkunýtingar. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.
Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ákvað að 900 milljónum verði varið til styrkveitinga af fjárveitingum ársins til loftslags- og orkumála. Guðlaugur segir að auka þurfi slagkraft frumkvöðla enda brýnt að koma orkuskiptum strax til framkvæmda.
Horft er til framleiðslu endurnýjanlegs eldsneytis til dæmis fyrir siglingar og flug, innviðauppbyggingar fyrir orkuskipti í samgöngum á landi og legi, hraðhleðslustöðvar og hleðsluinnviða í höfnum auk tækjabúnaðar sem nýtir endurnýjanlega orku í stað olíu. Orkusjóður hefur umsjón með að auglýsa og sýsla með þá styrki sem veittir verða.