Formaður umhverfis- og samgöngunefndar útilokar ekki kílómetragjald
Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og formaður Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis segir tillögur FÍB um kílómetragjald af bifreiðum góðan grunn að fjármögnun vegakerfisins.
FÍB hefur þetta eftir Vilhjálmi á vefsíðu sinni og vísar til viðtals við hann á útvarpsstöðinni Bylgjunni. Þar sagði hann brýnt að einfalda gjaldtöku og kvaðst vonast til að unnt verði að innleiða tillögur FÍB eða eitthvað þeim líkt sem fyrst, jafnvel um áramót.
Félagið hefur þróað reikniformúlu sem endurspegla á raunafnot allra ökutækja af vegakerfinu, sem það segir mæta þörf fyrir orkuskipti í samgöngum. Þannig komi kílómetragjald í stað eldsneytisgjalds, og jafnvel áforma um sérstaka gjaldtöku vegna nýframkvæmda, en tillögur FÍB þess efnis voru kynntar fyrr í vikunni.