Skemmtiferðaskip af minni gerðinni landtengd í fyrsta sinn
Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom til hafnar í Reykjavík í gær. Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að um 270 skip komi í sumar og á það að slá öll fyrri met í fjölda skipa og farþega.
Stefnt er að því að bóka eins mörg skip og Faxaflóahafnir ráða við en huga þarf að umhverfisáhrifum. Í sumar verða skemmtiferðaskip af minni gerðinni landtengd með rafmagni í fyrsta sinn við gömlu höfnina í Reykjavík.
Gunnar segir að risastóru skipin við Sundahöfn verði landtengd innan nokkurra ára.
„Þeim skipum sem menga lítið þeim verði umbunað. En hinir þurfa að greiða hærri gjöld. Gjaldskráin taki mið af mengun. Þetta er norskt kerfi sem við völdum að innleiða. Og erum að gera það í fyrsta skipti í sumar og vonandi verður það til þess að skipafélögin velji þá bestu skipin með tilliti til umhverfisáhrifa til að koma til Íslands,“ segir Gunnar.
Faxaflóahafnir er í eigu sveitarfélaga. Fyrirtækið greiddi 760 milljónir króna í arð í fyrra og er nú að skila methagnaði í ár. Gunnar segir að afkoman hjálpi til við rekstur sveitarfélaganna.