29. apríl 2023 kl. 7:53
Innlendar fréttir

Norðlæg átt á landinu í dag

Útlit er fyrir nokkuð svalt veður á landinu í dag en veðurstofan spáir hita á bilinu 0 til 8 stig. Kaldast verður norðaustanlands en hlýjast með suðurströndinni.

Norðlæg átt verður ríkjandi, víðast hvar á bilinu 3-10 m/s, en að 15 m/s á Austfjörðum. Framan af degi létt- eða hálfskýjað í öllum landshlutum en er líður á daginn þykknar upp sunnan til og líkur á stöku skúr eða slydduéli á Suðausturlandi.

Líkt og gjarnan fylgir bjartviðri á þessum tíma árs er þó víða von á næturfrosti. Svipað veðurútlit er fyrir morgundaginn en undir kvöld þykknar upp með stöku éljum um norðanvert landið.