1. júní 2023 kl. 18:07
Innlendar fréttir
Hlé gert á samningafundi BSRB og sveitarfélaganna
Samningafundur fulltrúa BSRB og samninganefndar sveitarfélaganna sem hófst klukkan eitt í dag stendur enn. Hlé var gert á fundinum áðan en honum verður fram haldið klukkan sjö. Verkfallsaðgerðir BSRB hafa haldið áfram. Á morgun verður ekki verkfall í leikskólum en verkfall verður hjá fólki í BSRB sem vinnur hjá hafnarstjórn í Þorlákshöfn. Takist ekki samningar fyrir mánudag hefjast mjög víðtækar verkfallsaðgerðir. Þá leggja félagar í BSRB sem starfa í leikskólum, bæjarskrifstofum, sundlaugum og íþróttamannvirkjum í á þriðja tug sveitarfélaga niður störf, ýmist tímabundið eða ótímabundið. Þá eiga verkföll eftir að raska starfsemi almenningssamgangna, hafna og vinnuskóla í nokkrum sveitarfélögum.