14. júlí 2023 kl. 15:33
Innlendar fréttir
Kjaramál

Ástráður Haraldsson nýr ríkissáttasemjari

Ástráður Haraldsson hefur verið skipaður ríkissáttasemjari til fimm ára frá og með 18. júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Sex sóttu um embættið: Aldís Guðný Sigurðardóttir, lektor við viðskiptadeild HR og MBA-náms og aðstoðarríkissáttasemjari, Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, Hilmar Már Gunnlaugsson, lyfjafræðingur, Maríanna Hugrún Helgadóttir, formaður og framkvæmdastjóri Félags íslenskra náttúrufræðinga, Muhammad Abu Ayub, vaktstjóri og Skúli Þór Sveinsson, sölumaður.

RÚV / Ragnar Visage

Hæfisnefnd, sem var skipuð fulltrúum atvinnurekenda og launafólks, komst að þeirri niðurstöðu að tveir umsækjendur væru mjög vel hæfir til að gegna embættinu. Það var síðan mat Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, að Ástráður uppfyllti best þær kröfur sem gerðar væru til þess sem gegnir embættinu.