Launamál dómara til Hæstaréttar
Hæstiréttur hefur fallist á að taka fyrir mál Ástríðar Grímsdóttur, skipaðs héraðsdómara, gegn íslenska ríkinu. Málið snýst um launagreiðslur dómara og annarra opinberra embættismanna. Þeim var breytt afturvirkt í fyrra eftir að Fjársýsla ríkisins greindi frá því að laun hefðu verið ofgreidd um árabil.
Héraðsdómur úrskurðaði í maí að ríkinu hefði verið óheimilt að breyta laununum en ríkið áfrýjaði úrskurðinum og hefur Hæstiréttur veitt áfrýjunarleyfi án þess að málið fari til Landsréttar þar sem það hafi almennt fordæmisgildi.
Allir dómarar landsins teljast vanhæfir til að dæma málið. Í héraðsdómi voru Gunnar Þór Pétursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá eftirlitsstofnun EFTA, Berglind Svavarsdóttir lögmaður og Sindri M. Stephensen dósent við lagadeild HR, settir dómarar í málinu.