Fundu fleiri eldislaxa en villtan í Ísafjarðará
Fiskistofa hefur ráðist í róttækar aðgerðir til að koma í veg fyrir að eldislaxinn, sem slapp út um tvö göt á kví Arctic Sea Farm í ágúst, blandist villtum laxi í ám.
Í fyrradag komu til landsins þrír sérfræðingar frá Noregi sem ætla að rekkafa eftir eldislaxinum. Þeir hófust handa í Ísafjarðardjúpi í gær.
Øyvind Kanstad Hanssen er einn kafaranna. Hann segir að vel hafi gengið í Ísafjarðará í gær.
Meira var af eldislaxi í ánni en villtum laxi. Þeir skutu tólf eldislaxa og særðu þrjá.
Hann segir óheppilegt ef eldislaxinn nær að hrygna. Mikilvægt sé að brugðist verði rétt við og eldisfiskurinn verði fjarlægður.
Í tilkynningu frá Acrtic Sea Farm segir að fyrirtækið sýni skilning að MAST hafi óskað eftir opinberri rannsókn. Þeir dragi lærdóm af atvikinu sem varð í kvínni í Patreksfirði.