Tómas H. Heiðar kjörinn forseti Alþjóðlega hafréttardómstólsins
Tómas H. Heiðar var í gær kjörinn forseti Alþjóðlega hafréttardómstólsins í Hamborg til næstu þriggja ára. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins. Norðurlöndin tilnefndu Tómas til setu í dómstólnum árið 2014. Hann náði kjöri og var skipaður dómari við dómstólinn til næstu níu ára. Fyrr á þessu ári var hann svo endurkjörinn til næstu níu ára.
Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins segir að Tómas hafi verið forseti deildar dómstólsins fyrir fiskveiðideilur frá 2017 - 2020 og gegnt embætti varaforseta frá 2020. Samhliða dómarastarfinu ytra hefur Tómas gegnt starfi forstöðumanns Hafréttarstofnunar Íslands. Auk þess á hann sæti í stjórn Ródos-akademíunnar í hafrétti, kennir hafrétt við lagadeild Háskóla Íslands og fjölda annarra háskóla og ritað fjölda bóka og fræðigreina á sviði hafréttar, segir í tilkynningunni.