Stjórnvöld afla nánari upplýsinga um Venesúelabúana
Íslensk stjórnvöld og Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex, vinna að því að afla nánari upplýsinga um Venesúelabúana sem fóru til Venesúela í gær og stöðu þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Dómsmálaráðuneytisins.
Útlendingastofnun og embætti ríkislögreglustjóra í samvinnu við Frontex, aðstoðuðu 180 venesúelska ríkisborgara, 155 fullorðna og 25 börn, við að fara til Venesúela í sjálfviljugri heimför að því er segir í tilkynningunni.
Fólkið hafði dvalið hér á landi sem umsækjendur um alþjóðlega vernd en ýmist verið synjað eða dregið umsóknir sínar til baka. Formaður Félags talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd sagði í hádegisfréttum að fólkinu hafi verið meinað að yfirgefa flugvöllinn í Caracás, höfuðborg Venesúela, og sagði að vegabréf fólksins og reiðufé hafi verið tekið af því.
Í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins segir að flugið hafi gengið vel. Flogið hafi verið frá Íslandi til Venesúela í beinu leiguflugi á vegum Frontex. Um borð var starfsfólk á vegum Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra, hjúkrunarfræðingar og sjálfstæður eftirlitsaðili á vegum Frontex, auk spænskrar áhafnar.
Farþegarnir hafi síðan gengið heilu og höldnu frá borði og inn í flugstöð, þar sem leiðir starfsfólks stjórnvalda og Frontex og Venesúelabúanna skildu.