21. febrúar 2024 kl. 11:16
Innlendar fréttir
Kjaramál

Fyrsti fundur eftir að viðræðum var slitið

Samningafundur í kjaradeilu stærstu félaganna innan ASÍ og Samtaka atvinnulífsins stendur nú yfir hjá ríkissáttasemjara. Samtök atvinnulífsins óskuðu eftir fundinum. Þetta er fyrsti fundur í deilunni síðan viðræðum var slitið fyrir um tveimur vikum. Ásteytingarsteinninn var forsenduákvæði um þróun verðbólgu og vaxta, sem Samtök atvinnulífsins hafa hafnað.

Þá funda vinnuhópar iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins í dag og hittast svo hjá ríkissáttasemjara á morgun. Formaður Rafiðnaðarsambandsins segir óþreyju farið að gæta í baklandinu. Beri fundir vikunnar ekki árangur þurfi mögulega að grípa til aðgerða.